Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál

1158/2023. Úrskurður frá 8. nóvember 2023

Hinn 8. nóvember 2023 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1158/2023 í máli ÚNU 23060006.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 14. júní 2023, kærði A synjun embættis landlæknis á beiðni um gögn. Með úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 1088/2022 frá 12. júlí 2022 felldi nefndin úr gildi ákvörðun emb­ætt­is landlæknis, dags. 9. desember 2021, um að synja beiðni kæranda um aðgang að upplýsingum og lagði fyrir embættið að taka beiðni hans til nýrrar og lögmætrar meðferðar.

Upphafleg beiðni kæranda til embættis landlæknis, dags 2. desember 2021, hljóðaði á um aðgang að nánar tilgreindum og sundurliðuðum upplýsingum um spítala­innlagnir og legudaga vegna COVID-19-sjúk­dómsins, inflúensu og aukaverkana bólusetninga á tilteknu tímabili. Úrskurðarnefndin taldi að emb­ættið hefði ekki leiðbeint kæranda nægilega í samræmi við 3. mgr. 15. gr. upplýsingalaga og að beiðnin hefði þannig ekki hlotið þá málsmeðferð sem upplýsingalög gera kröfu um.

Í framhaldi af úrskurði nefndarinnar sendi kærandi embættinu erindi, dags. 22. ágúst 2022, og ítrekaði að beiðnin yrði tekin til nýrrar og lögmætrar meðferðar enda væru sex vikur liðnar síðan úrskurðar­nefnd um upplýsingamál felldi ákvörðun embættisins úr gildi. Með svari embættisins, dags. 1. sep­tem­ber 2022, var kærandi upplýstur um að beiðnin væri enn í vinnslu og óskað frekari útskýringa frá kær­anda varðandi liði 5 til 6 í beiðninni. Beiðnin væri afar yfirgrips­mikil: sum gögn væru til hjá emb­ætt­inu en önnur væru hjá öðrum aðilum sem embættið þyrfti að afla til að taka saman í svar við fyrir­spurn­inni. Kærandi ítrekaði erindið á ný, dags. 27. september 2022, 13. október 2022, 4. og 29. nó­vem­ber 2022 og var á því tímabili upplýstur um að málið væri í vinnslu.

Í svari embættisins, dags. 6. de­sember 2022, kom fram að fyrirspurn kæranda hefði verið tekin til með­­­ferðar hjá embættinu og fékk kær­andi afhentan hluta af gögnunum. Ljóst væri að mörgum atriðum í fyrir­spurninni yrði ekki svarað nema með leyfisskyldri samkeyrslu gagnagrunna sem hafi að geyma við­kvæmar persónuupplýsingar. Þá kynni Lyfjastofnun að hafa undir höndum gögn varðandi auka­verk­anir í tengslum við COVID-19-sjúkdóminn og inflúensu og því gæti verið skynsamlegt að leita þangað. Kær­andi ítrekaði erindið á ný, dags. 15. de­sember 2022 og 17. maí 2023, og skoraði á embættið að svara fyrir­spurn sinni að fullu í samræmi við úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 1088/2022. Með svari, dags. 17. maí 2023, kvaðst emb­ættið hafa svarað fyrirspurninni eftir bestu getu og sam­kvæmt þeim reglum sem giltu um afgreiðslu fyrir­spurna.

Kærandi taldi rétt í framhaldinu að kæra embætti landlæknis til heilbrigðisráðuneytisins en ráðuneytið vísaði kærunni frá, með úrskurði nr. 009/2023 frá 19. apríl 2023, á grundvelli þess að vísa bæri málinu aftur til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, þar sem um væri að ræða nýja málsmeðferð í máli sem tekið var fyrir hjá nefndinni í úrskurði nr. 1088/2022.

Í kæru kemur fram að kærandi krefjist þess að embætti landlæknis afhendi honum öll gögn sem óskað var eftir í fyrirspurninni frá 2. desember 2021 í samræmi við fyrirliggjandi úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 1088/2022. Úrskurðurinn væri afdráttarlaus og kærandi líti svo á að embættinu sé skylt að afhenda honum öll umbeðin gögn. Embættið hafi með einbeittum ásetningi reynt að tefja málið og einungis veitt kæranda veigaminnstu gögnin og mjög takmarkaðar upplýsingar sem nýttust kær­anda ekki neitt.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt embætti landlæknis með erindi, dags. 15. júní 2023, og embættinu veittur kostur á að koma á fram­færi umsögn um kæruna. Jafnframt var þess óskað að embættið léti úrskurðarnefnd um upp­lýs­inga­­mál í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.

Í umsögn landlæknis, dags. 7. júlí 2023, kemur fram að umrædd kæra tengist fyrri úrlausn nefndarinnar þar sem lagt var fyrir embættið að afhenda kæranda umbeðin gögn. Í kjölfar þess úrskurðar hafi emb­ætt­ið afhent þau gögn sem því var mögulegt að afhenda. Embættið telji rétt að taka fram að upp­lýs­inga­beiðni kæranda sé mjög umfangsmikil og emb­ættið búi ekki yfir verulegum hluta þeirra upplýsinga sem kærandi óski eftir. Þá gæti embættið heldur ekki útvegað upplýsingarnar.  

Í tengslum við fyrri úrskurð hafi embættið greint frá því að embættinu væri ómögulegt að útbúa og afhenda upplýsingar sem óskað væri eftir þar sem slíkt krefðist um­fangs­­mikillar samkeyrslu á heil­brigð­is­skrám sem innihalda viðkvæmar persónuupplýsingar.

Til að bregðast við kæru á meðferð upplýsingabeiðni kæranda hyggist embættið því kanna hjá Persónu­vernd hvort viðkomandi samkeyrsla sé embættinu heimil á grundvelli fyrirmæla sem stofnunin hefur gefið embættinu en að öðrum kosti sækja um leyfi til samkeyrslu. Ljóst sé að sú vinna muni taka nokk­urn tíma, vegna sumarleyfa starfsmanna beggja stofnanna en embættið muni beita sér fyrir því að málið vinnist svo hratt sem mögulegt er. Ekki verði ljóst nákvæmlega hvað af þeim upplýsingum sem kær­andi óski eftir verði hægt að afhenda honum fyrr en að loknum samkeyrslum, velti það á því hvaða upp­lýsingar séu tiltækar í heilbrigðisskrám embættisins og gæðum skráninga sem þar sé að finna. Emb­ættið muni hins vegar vinna eins ítarlega svör við beiðni kæranda og mögulegt er.

Umsögn embættis landlæknis var kynnt kæranda með bréfi, dags. 19. júlí 2023, og honum veittur kostur á að koma á fram­færi frekari athugasemdum. Frekari athugasemdir kæranda bárust ekki.

Með erindi til embættis landlæknis, dags. 4. október 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir upplýsingum um það hvort búið væri að afgreiða beiðni kæranda. Ef ekki óskaði nefndin upplýsinga um hvort embættið væri búið að kanna hvort framangreind samkeyrsla væri því heimil, líkt og fram hefði komið í umsögn embættisins frá því í júlí. Svar barst hinn 12. október 2023. Þar kemur fram að á dögunum hafi embættið fengið heimild frá persónuverndarfulltrúa embættisins til að hefja samkeyrslur, á grund­velli upplýsinga sem borist hefðu frá Persónuvernd. Beiðni kæranda væri umfangsmikil og nýtt fyrir­komulag við samkeyrslu kallaði á að vandað yrði til verka svo gagnasafnið yrði ópersónugreinanlegt. Vonir stæðu til að sérfræðingar embættisins gætu hafist handa við samkeyrslur í næstu viku.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum um spítalainnlagnir og fjölda legudaga vegna inflúensu, COVID-19-sjúkdómsins og aukaverkana bólusetninga á tilteknu tímabili en beiðnin var nánar til­greind í sex liðum. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál kvað upp úrskurð nr. 1088/2022 hinn 12. júlí 2022. Það var niðurstaða nefndarinnar að embætti landlæknis hefði ekki leiðbeint kæranda nægilega í sam­ræmi við 3. mgr. 15. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012. Þá ítrekaði úrskurðarnefndin að þótt umbeðnar upplýs­ing­ar væru ekki fyrirliggjandi í heild sinni eða sundurliðaðar með þeim hætti sem beiðnin gerði ráð fyrir væri ekki unnt að synja beiðninni í heild sinni á þeim grunni.

Embætti landlæknis tók beiðni kæranda til meðferðar og afhenti kæranda þau gögn sem embættið taldi mögu­legt að afhenda en tók fram að mörgum atriðum í beiðninni yrði ekki svarað nema með leyfis­skyldri samkeyrslu gagnagrunna sem hefðu að geyma viðkvæmar persónuupplýsingar. Málinu var því vísað til úrskurðarnefndarinnar á ný.

Embætti landlæknis hefur upplýst við meðferð málsins að það hafi fengið heimild frá persónuverndar­full­trúa embættisins til að hefja samkeyrslur og að það verði gert í því skyni að afgreiða beiðni kæranda. Nefnd­in telur því ljóst að embættið hafi því upplýsingabeiðni kæranda enn til meðferðar. Í ljósi þess liggur ekki fyrir synjun á beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga. Það er því niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að henni beri að vísa kæru kæranda frá nefnd­inni að svo stöddu. Nefndin áréttar að kærandi getur leitað til nefndarinnar að nýju ef dráttur verður á afgreiðslu málsins hjá embætti landlæknis eða verði beiðninni synjað.

Nefndin áréttar að í 1. mgr. 17. gr. upplýsingalaga segir að tekin skuli ákvörðun um það hvort orðið verður við beiðni um aðgang að gögnum svo fljótt sem verða má. Hafi beiðni ekki verið af­greidd innan sjö daga frá móttöku hennar skal skýra aðila frá ástæðum tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur að umfang gagnabeiðni kæranda skýri að hluta þann mikla drátt sem orðið hefur á afgreiðslu á beiðni kæranda. Nefndin beinir því til embættis landlæknis að gæta að regl­um um málshraða, sbr. 17. gr. upplýsingalaga og 9. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Úrskurðarorð

Kæru A, dags. 14. júní 2023, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Kjartan Bjarni Björgvinsson, varaformaður
Elín Ósk Helgadóttir
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum